Korputún hlýtur bráðabirgðavottun BREEAM
Korputún, deiliskipulag, hefur fengið staðfest fyrsta skref umhverfisvottunar frá BREEAM. Með því að BREEAM votta skipulagið er tryggt að hugað sé að sjálfbærum áherslum í skipulagsvinnu strax í upphafi með vel skilgreindum viðmiðum um samfélagsleg, umhverfisleg og efnahagsleg gæði.
Öll grunngögn sem unnin voru fyrir deiliskipulagið hafa verið samþykkt sem er forsenda bráðabirgðavottunar.
Verkís vann flest gagnanna. Gert var ítarlegt flóðahættumat, hljóðvistargreining, orkuáætlun, vatnsáætlun og samgöngumat fyrir hverfið auk þess sem landið var skoðað m.t.t. fyrri notkunar, innviða og mögulegrar mengunar og gert vistfræðimat og viststefna fyrir hverfið. Öll gögnin eru unnin samhliða deiliskipulagsgerðinni og móta vinnu við deiliskipulagið þar sem svæðið er hannað í takt við niðurstöður þessara greininga.
Reitir fasteignafélag er eigandi Korputúns og fór fyrir skipulagsgerðinni. Arkís eru hönnuðir skipulagssins og Mannvit er matsaðili fyrir BREEAM vottunina.