Verkís með tvo fyrirlestra á Autodesk University 2024 í San Diego
Verkís hélt tvo fyrirlestra á árlegri ráðstefnu Autodesk, sem haldin var í San Diego í vikunni. Ráðstefnan dregur til sín um 12 þúsund gesti og voru yfir 650 fyrirlestrar um margvísleg efni allt frá notkun á stafrænni hönnun og gervigreind í hönnun og framkvæmdum yfir í tölvuleikjahönnun og tæknibrellur í kvikmyndageiranum.
Annar fyrirlestur Verkís fjallaði um uppsetningu og rekstur innviðaverkefna í Autodesk Construction Cloud (ACC). Þar var farið í gegnum verkferla og uppsetningu sem þróuð var í verkefni sem Verkís hefur unnið fyrir ISAVIA á Keflavíkurflugvelli. Fyrir hönd Verkís fluttu byggingarverkfræðingarnir Péter Farkas og Ragnar Steinn Clausen fyrirlestur en með þeim var James Tuite frá Autodesk.
Hinn fyrirlesturinn var tileinkaður eldsumbrotunum á Reykjanesi, þar sem Verkís hannaði varnargarða til að vernda mannvirki gegn hraunflæði. Í fyrirlestrinum var farið yfir hraunflæðilíkön og hönnun varnargarða sem Verkís hefur þróað. Fyrirlesari var Hallgrímur Örn Arngrímsson, byggingarverkfræðingur.
Stefna Verkís er að vera í fararbroddi meðal verkfræðiráðgjafa í stafrænni hönnun, og þátttaka í leiðandi ráðstefnum sem þessari er mikilvægur þáttur í þeirri vegferð. Þar gefst tækifæri til að kynnast tækninýjungum og efla tengsl við sérfræðinga á alþjóðavettvangi.