17/03/2023

Verkís kom að gerð skýrslu um kornrækt

Verkís kom að gerð skýrslu um kornrækt
Bleikir akrar - Aðgerðaáætlun um aukna kornrækt

Verkís kom að gerð skýrslu um kornrækt. Ný skýrsla um eflingu kornræktar, sem unnin var af Landbúnaðarháskóla Íslands fyrir matvælaráðuneytið, var kynnt á fundi á Hilton Nordica sl. miðvikudag, 15. mars. Markmið þessa verkefnis var að kanna fýsileika kornsamlags, leggja fram aðgerðaáætlun til eflingar innlendrar kornræktar og skilgreina þarfir á lágmarksbirgðum kornvöru í landinu.

Skýrslan er unnin af starfshópi Landsbúnaðarháskóla Íslands (Lbhí) en hún var skrifuð af Helga Eyleifi Þorvaldssyni, Agli Gautasyni og Hrannari Smára Hilmarssyni. Þorleikur Jóhannesson og Óskar Pétur Einarsson, verkfræðingar hjá Verkís, voru fengnir til að annast útreikninga sem vörðuðu þurrkstöðvar, kornflutninga og nýtingu jarðvarma til að þurrka korn.

Áætlaður kostnaður við kornrækt á Íslandi var borinn saman við raunkostnað í nokkrum nágrannalöngum. Samanburðurinn bendir til þess að kostnaður við kornrækt á Íslandi sé sambærilegur við nágrannalönd. Helstu styrkleikar íslenskar kornræktar í samanburði við erlenda er mikið, frjósamt og ódýrt ræktarland, lágur raforku- og heitavatnskostnaður, og lágur kostnaður við varnarefni.

Hagkvæmni þess að nota jarðvarma til að þurrka korn var metin. Niðurstöðurnar benda til þess að nýting jarðvarma sé bæði raunhæfur og hagkvæmur kostur. Greining á kostnaði við uppbyggingu þurrkstöðva og geymslna sýndi mikla stærðarhagkvæmni.

Kornsamlag er fyrirtæki sem tekur við korni frá bændum og selur það áfram til kaupenda. Fýsileiki þess að stofna kornsamlag var kannaður með því að athuga vilja stærstu kaupenda á korni í landinu til að kaupa íslenskt korn af slíku fyrirtæki. Nær allir stórir kornkaupendur á Íslandi skrifuðu undir viljayfirlýsingu þess efnis.

Til þess að raunhæft sé að nota íslenskt korn í fóðurog matvælaframleiðslu er nauðsynlegt að milliliður, eitt eða fleiri kornsamlög, sé til staðar milli bænda og kaupenda. Fóður- og matvælafyrirtæki þurfa að geta séð fyrir hvaða framboð verður af innlendu korni í magni, gæðum og verði, og eitt af hlutverkum kornsamlags er að miðla þeim upplýsingum.

Hér er hægt að lesa skýrsluna.

Heimsmarkmið

Verkís kom að gerð skýrslu um kornrækt
Bleikir akrar - Aðgerðaáætlun um aukna kornrækt