02/09/2024

HYDROVISION International ráðstefnan í Denver

Þorbergur Steinn Leifsson

Þorbergur Steinn Leifsson, byggingarverkfræðingur og straum- og vatnafræðingur hjá Verkís, hélt áhugaverðan fyrirlestur á HYDROVISION International ráðstefnunni sem haldin var í Denver í júlí á þessu ári. HYDROVISION International er stærsti vettvangur fyrir sérfræðinga á sviði vatnsafls og stíflugerðar vestanhafs. Þar koma saman yfir 1.200 þátttakendur frá meira en 50 löndum. Ráðstefnan er hliðstæð HYDRO ráðstefnunum sem haldnar eru í Evrópu sem Verkís og nokkur önnur íslensk fyrirtæki sækja árlega, en nokkuð langt er síðan að íslendingur hefur sótt þessa ráðstefnu. 

Fyrirlestur Þorbergs bar heitið: „Gerð altækra grafa til að meta hagkvæmasta vatnshraða í ýmsum gerðum vatnsvega. Aðferð, forsendur, næmni og niðurstöður“ og fjallaði um bestun vatnsvega. Aðferðin byggir á aðferð sem Loftur Þorsteinsson fyrrum framkvæmdastjóri VST þróaði, og hefur verið notuð hér á landi áratugum saman en virðist lítið þekkt erlendis. Aðferðin er ekki bara mjög einföld og nákvæm heldur hefur Þorbergur sett fram einfaldar aðferðir til næmnigreiningar til þess að fá nákvæmar niðurstöður fyrir allar aðrar forsendur varðandi stofnkostnað orkuverðs og vaxta út frá sömu gröfunum. Þorbergur hafði áður kynnt þessar aðferðir á HYDRO 2022  og í grein í The International Journal on HYDROPOWER&DAMS. 

Verkís er stolt af því að eiga fulltrúa á þessum vettvangi og mun halda áfram að leggja sitt af mörkum til þróunar á sviði vatnsafls, bæði hérlendis og erlendis. Við óskum Þorbergi innilega til hamingju með vel heppnaðan fyrirlestur og hlökkum til að fylgjast vel með á þessu áhugaverða sviði.

Heimsmarkmið

Þorbergur Steinn Leifsson