29/08/2024

Verkís hannar nýja brú í Skolte, Noregi

Nýja brúin í Skolte

Verkís leggur nú lokahönd á hönnun nýrrar brúar í Skolte fyrir Innlandet fylkeskommune í Noregi. Verið er að skipta út gamalli einbreiðri brú með trégólfi, en nýja brúin mun bæta samgöngur á svæðinu og auka öryggi vegfarenda.

Verkefnið hófst sumarið 2022

Verkefnið hófst sumarið 2022 með forhönnun, en stoppaði tímabundið vegna fjármögnunarvanda. Vinnan hófst aftur í vetur, og reiknað er með að brúin og aðliggjandi vegir verði boðnir út í haust. Nýja brúin verður staðsett um 150 km frá Osló, við Skammestein, rétt neðan við litla vatnsaflsvirkjun í Hedalsfjorden.

Tvíbreið brú og ný veglína

Nýja brúin verður tvíbreið, 7,5 metra breið og 52,4 metra löng í tveimur 26,2 metra höfum, þar sem millistöpull verður staðsettur á eyju í vatninu.
Verkís hefur valið að nota forsteypta bita með staðsteyptri plötu fyrir brúna. Bitarnir eru forspenntir og bera mót og steypu þegar steypa er hellt, og þegar steypan harðnar verður brúin samverkandi og samfelld í tveimur höfum. Þessi valkostur var valinn vegna kostnaðar, framkvæmdartíma, og til að lágmarka vinnu úti í vatninu. Nýja veglínan og brúin verða einnig hækkuð til að tryggja lágmarkshæð yfir vatnið og inntakið í stífluna.

Umhverfisgreining og 3D módel

Verkkaupi óskaði einnig eftir LCA greiningu á brúnni með tilliti til efnisnotkunar, framkvæmdar og reksturs. Við vinnslu verkefnisins voru notuð 3D módel í Trimble Connect til að auðvelda samskipti við verkkaupa og tryggja að öll hönnun væri í samræmi við þarfir verkefnisins.

Verkís teymið

Verkefnið er í höndum reynslumikils teymis hjá Verkís:

Verkefnastjóri: Grétar Páll Jónsson
Veghönnun: Helga Þórunn Gunnlaugsdóttir
Brúarhönnun:Eggert V. Valmundsson
Flóðarútreikningar: Unnar Númi Almarsson
LCA greining: Hera Harðardóttir
Jarðtækni: OPV Noregi

Verkís hlakkar til að sjá þetta mikilvæga verkefni þróast áfram og halda áfram að styrkja samgöngur í Noregi enn frekar.

Heimsmarkmið

Nýja brúin í Skolte