Verkefni
Ilulissat vatnsaflsvirkjunin
Ilulissat vatnsaflsvirkjunin er staðsett við Disco flóa, Vestur-Grænlandi, á norðurslóðum við 69°N, um 45 km norðaustur af bænum.
Virkjað rennsli er 15 rúmmetrar á sekúndu og fallhæð 186 m.
Verkefni
Ilulissat vatnsaflsvirkjunin er staðsett við Disco flóa, Vestur-Grænlandi, á norðurslóðum við 69°N, um 45 km norðaustur af bænum.
Virkjað rennsli er 15 rúmmetrar á sekúndu og fallhæð 186 m.
Ilulissat vatnsaflsvirkjunin er þriðja vatnsaflsverkefnið á Grænlandi, þar sem Verkís er aðalhönnuður. Verkefnið kemur í kjölfar framkvæmda við virkjanir í Qorlortosuaq (7,5 MW, í rekstur 2006) og Sisimiut (15 MW, í rekstur 2009). Pihl/Ístak var framkvæmdaraðili við öll þrjú verkefnin.
Verkefnið virkjar rennsli frá tveimur náttúrulegum jökullónum á svæðinu „Paakitsup Akuliarusersua“ með niðurdrætti í vatnshæð um annars vegar 30 m og hins vegar 50 m. Vatn er leitt frá efra vatninu í gegnum aðflutningsgöng, stjórnað með lokum. Neðra vatnið þjónar sem inntakslón, og þaðan er vatnið leitt í gegnum inntaksmannvirki að hallandi ófóðruðum fallgöngum, að hluta í sífrera, niður í þrjár 7,5 MW Francis vélar á lóðréttum ás í neðanjarðar stöðvarhúsi, staðsett við sjávarmál um 400 m inni í fjallinu. Við hlið stöðvarhússins er spenna- og rofahellir. Frá túrbínunum rennur vatnið út í frárennslisgöng, sem liggja til sjávar.
Við munna aðkomuganga stöðvarhússins er steypt þjónustuhús, sem hýsir þjónustuaðstöðu og geymslur fyrir virkjunina og starfsfólk hennar. Auk þess er í byggingunni fullbúið gistirými fyrir 10 manns. Höfn og hafnarhús, sem hýsir neyðardísilvél og flutningabíla, er einnig hluti af verkefninu. Aðveitustöð búin tveimur spennum, rofabúnaði og viðeigandi stjórnbúnaði er staðsett í bænum Ilulissat.
Framleitt rafmagn virkjunarinnar sér Ilulissat (um 4.500 íbúa) fyrir rafmagni, og kemur í staðinn fyrir dísilrafstöðvar, og gerir bæinn þannig óháðan innfluttu eldsneyti.
Sérfræðingar Verkís unnu mat á staðháttum, verkhönnun, deilihönnun byggingarvirkja, útboðshönnun og gerð útboðsgagna fyrir raf- og vélbúnað sem og samræmingu deilihönnunar undirverktaka á þeim búnaði, og úttektir og gangsetningu virkjunarinnar.
Staðsetning:
Grænland
Stærð:
22,5 MW
Verktími:
2009 – 2014