Vígsla brúar yfir Jökulsá á Sólheimasandi
Vígsla brúar yfir Jökulsá á Sólheimasandi. Ný brú yfir Jökulsá á Sólheimasandi var vígð á föstudaginn í blíðskaparveðri. Verkís hannaði brúna og sá um gerð útboðsgagna. Með nýju brúnni er engin einbreið brú á Hringveginum frá Reykjavík til Kirkjubæjarklausturs. Vonir standa til þess að einbreiðar brýr verði orðnar 29 í lok árs en fyrir fjórum árum voru þær 37.
Þetta er þriðja brúin sem byggð er yfir ána. Sú fyrsta var byggð 1921 og næsta árið 1967. Nýja brúin er 163 m löng, tvíbreið, staðsteypt, eftirspennt bitabrú í fimm höfum. Heildarbreidd er 10 m. Brúin liggur rúmum metra hærra en eldri brú en vegurinn vestan brúarinnar hefur verið lækkaður til að beina flóðvatni frá brúarmannvirkinu. Umferð var hleypt á brúna 26. september sl.