09/04/2019

Tjaldurinn færir okkur vorið

Tjaldurinn færir okkur vorið
Sjötta árið í röð heiðrar tjaldapar starfsfólk Verkís í Ofanleitinu með nærveru sinni. Skötuhjúin eru vorboði í okkar huga og tökum við þeim fagnandi.

Tjaldurinn færir okkur vorið. Sjötta árið í röð heiðrar tjaldapar starfsfólk Verkís í Ofanleitinu með nærveru sinni. Skötuhjúin eru vorboði í okkar huga og tökum við þeim fagnandi.

Það var á fimmtudaginn í síðustu viku sem starfsmaður Verkís hitti parið á bílastæðinu okkar. Það hafði komið sér vel fyrir á jeppa, ef til vill að hvíla sig eftir langt ferðalag. Þetta er í fyrsta skipti við sjáum til parsins á þessu ári og eru þau líklega heldur seinna á ferðinni en síðustu ár.

Í fyrra mætti annar fuglinn rétt fyrir miðjan mars og fylgdi makinn síðan á eftir. Árin áður höfðu þau verpt á þaki Verslunarskóla Íslands sem stendur við hlið Verkís en í fyrra varð breyting á. Arnór Þórir Sigfússon, dýravistfræðingur og sérlegur áhugamaður um fugla hjá Verkís, telur að parið hafi fært sig og verpt í nágrenninu.

Lífsbaráttan hefur nefnilega verið hörð á þaki Verslunarskólans en þar hefur tjaldaparinu staðið ógn af nágranna þeirra, sílamáfnum, sem einnig hefur verpt á þakinu. Sumir sílamáfar éta nefnilega unga. Þak á margra hæða húsi er heldur ekki mjög öruggur staður fyrir ófleyga unga, líkt og starfsfólk Verkís varð vitni að sumarið 2016 en þá hrapaði annar ungi tjaldparsins til bana .

Sumarið 2016 verpti sílamáfurinn í fyrsta skipti á þaki Verslunarskólans eftir að Verkís flutti í Ofanleitið árið 2012. Fyrstu tvö árin verpti hann í norðvestur- og suðvesturhornin á þakinu undir kantinum en tjaldaparið hélt sig eins langt frá máfnum og það mögulega gat.

Í fyrra færði máfurinn sig og verpti undir viðarhríslu miðja vegu undir suðurkantinum og kann að vera að tjaldaparið hafi þá látið í minnipokann og fært sig af þakinu. Nú bíðum við spennt eftir því hvort þau snúi aftur á þakið eða verpi á óþekktum stað í nágrenninu. Arnór Þórir hefur meðal annars séð til þeirra á þakinu síðustu daga og kann að vera að þau hafi verið að kanna aðstæður til varps.

Tjaldurinn er einkvænisfugl sem heldur ekki aðeins tryggð við maka sinn heldur einnig við óðal sitt, þar sem hann verpir. Það þarf því ekki að koma á óvart að fuglar komi á sama staðinn á hverju ári í nokkur ár til að verpa. Tjaldurinn er langlífur og ekki er ólíklegt að tjaldurinn verði allt að 35 ára gamall og jafnvel eldri.

Annar tjaldurinn sem kom til okkar fyrstu árin var merktur en eitt sumarið kom hann ekki, heldur voru báðir fuglarnir ómerktir. Arnór Þórir segir líklegt að annar fuglinn hafi drepist, sá sem var merktur, og þá hafi hinn fundið sér annan maka og snúið aftur á gamla óðalið.

Sumarið 2006 greindi Morgunblaðið frá því að tjaldapar hefði tekið sér bólfestu á þaki annarrar hæðar fjölmiðilsins við Kringluna. Talið var líklegt að kvenfuglinn hefði verpt á flötina þó að það hefði ekki verið staðfest.

Sumarið 2004 greindi Morgunblaðið frá því að tjaldapar hefði hreiðrað um sig með unga á fjórðu hæð litla turnsins í Kringlunni.

Hvort alltaf sé um sömu fugla og hafa glatt starfsfólk Verkís með nærveru sinni er erfitt að segja en ljóst er að fuglalífið í nágrenninu er líflegt.

Umfjöllun RÚV um fuglalífið á þaki Verslunarskólans sumarið 2016:
Óvenjulegir nágrannar á þaki – Myndskeið
Miður sín yfir örlögum tjaldsunga

Tjaldurinn færir okkur vorið
Sjötta árið í röð heiðrar tjaldapar starfsfólk Verkís í Ofanleitinu með nærveru sinni. Skötuhjúin eru vorboði í okkar huga og tökum við þeim fagnandi.